„Hugmyndin er sú að sá sem mætir þarna og öskrar getur unnið sér inn eina til tvær milljónir,“ segir Frosti Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Dohop flugleitarvélarinnar og bloggari.
Hann tilheyrir hópi bloggara sem stendur fyrir svokölluðum hávaðamótmælum á Austurvelli á hádegi á morgun til að mótmæla því að Alþingi samþykki ríkisábyrgð á Icesave samningunum. Hann telur að mótmælendur geti unnið sér inn eina til tvær milljónir fyrir litla vinnu, en það er álíka upphæðinni sem deilist á hvern Íslending vegna samninganna.
„Menn þurfa að fá útrás – það er ekki bara hægt að blogga í hljóði. Þarna verða öskurkórar, lúðarsveitir og hrossabrestir,“ segir Frosti og bætir við að fólk geti tekið þátt í hávaðanum hvar sem þeir eru staddir á hádegi á morgun með því að þeyta bílflautu, hækka í græjunum eða stappa niður fótum.
Frosti segir markmiðið að sýna ríkisstjórninni að hún hafi þjóðina ekki með sér og stappa stáli í þá þingmenn sem hafa efasemdir um samningana.
Hópurinn er ósáttur við að skuldum einkabanka sé velt á almenning og segja afleiðingar þess að samþykkja Icesave samninginn verra en nokkuð sem Bretar og Hollendingar geti hótað þjóðinni. Þá telur hann fyrirvarana við samningana ekki ganga nógu langt.
Ríkisábyrgð á Icesave samningunum verður rædd í þinginu á morgun og hefjast umræður klukkan hálf ellefu. Málið var tekið út úr fjárlaganefnd í gær.
Blogg Frosta má sjá hér.