Hugmynd að nýjum skyndibita

Frosti Sigurjónsson segir það oftast koma í hans hlut að grilla fyrir fjölskylduna.
Viðtal birtist í Finnur.is
Frosti Sigurjónsson athafnamaður styður við nýsköpun á sviði tækni, hefur óbilandi áhuga á landsmálum og kann að meta makríl.

Við Sindri sonur minn kunnum báðir að meta makríl og höfum oft veitt hann og matreitt,“ segir Frosti Sigurjónsson. „Síðastliðið haust stefndi allt í að sá holli og góði fiskur yrði ófáanlegur í verslunum. Við ákváðum þá að útvega frosinn makríl í búðirnar í vetur og neytendur hafa tekið þessari nýjung vel.

Makríldeila Íslands við ESB hefur séð til þess að við höfum lítið þurft að auglýsa vöruna. Fólk er forvitið og margir vilja eflaust smakka þennan umdeilda fisk.

Fiskur í pylsubrauði

Við fjölskyldan heimsóttum Amsterdam í vor og rákumst þar á pylsuvagn sem seldi heitreyktan makríl í pylsubrauði, engin sósa. Það reyndist vera ótrúlega góður skyndibiti, nokkuð sem ég held að gæti átt góða möguleika á Íslandi. Vonandi fer einhver í að bjóða upp á þetta í Reykjavík.“

Aðspurður kveðst Frosti hafa í ýmsu að snúast. „Verkefnin hafa verið mjög fjölbreytt undanfarið, svo sem að leiðbeina spennandi sprotafyrirtækjum hjá Startup Reykjavík. Ég sit í nokkrum stjórnum, meðal annars Dohop sem rekur flug- og ferðaleitarvél, og DataMarket sem býður lausnir fyrir framsetningu gagna á vefnum. Nýlega gekk ég í stjórn Arctica Finance en allt eru þetta öflug og vaxandi fyrirtæki sem ég hef mjög gaman af að fylgjast með.

Eftir hrunið fékk ég brennandi áhuga á landsmálum og barðist gegn því að Icesave-skuldin yrði lögð á skattgreiðendur. Ég tel að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB og hef verið iðinn við að útskýra þá afstöðu hvenær sem færi gefst. Um þessar mundir er ég á kafi í því að kynna leiðir að endurbótum á peningakerfinu.“

Vaktir í eldhúsinu

Hann er spurður út í heimilisstörfin. „Það verður að játast að Auður Svanhvít eiginkona mín er miklu duglegri en ég að elda. Við eigum þrjú börn á aldrinum 14 til 21 árs og nú er stefnt á að hvert þeirra eldi eitt kvöld í viku. Það kemur oftast í minn hlut að grilla en við hjónin hjálpumst að við eldamennskuna þegar von er á matargestum. Þá fæ ég oft að græja hráefnið og gera sósur.

Við reynum að velja hollt og náttúrulegt hráefni og brasa matinn ekki of mikið. Við borðum trúlega mest af fisk- og grænmetisréttum en þegar kjöt er á borðum er vinsælast að hafa villibráð eða íslenskt lambakjöt.“

Mataræði fjölskyldunnar hefur að hans sögn breyst. „Lengi vel var ekkert kjöt á borðum, bara fiskur og grænmeti, en svo komu börnin. Þau vildu kjöt og þá var því bara bætt við. Nú er eitt barnið tekið upp á því að sneiða hjá kjöti og kannski endum við aftur sem fisk- og grænmetisætur.

Ég fer stundum út að borða í hádeginu í tengslum við vinnufundi en við förum sjaldan út að borða á kvöldin. Það kemur þó fyrir. Það er frábært úrval af góðum veitingastöðum í Reykjavík og erfitt að gera upp á milli. Þegar maður vill indverskan mat er Austur-Indíafélagið alveg frábært en þegar mann langar í sushi þá er það kannski Fiskmarkaðurinn eða Sushismiðjan. Reyndar er alltaf spennandi að prófa nýja matstaði.“