Undarlegt Sérrit Seðlabanka um Peningastefnu eftir höft

Screen shot 2010-12-22 at 17.40.26 Þrátt fyrir titil Sérritsins sé „Peningastefna eftir höft“ þá fer býsna drjúgur hluti í að verja þá ógæfulegu peningastefnu sem Seðlabankinn kaus að fylgja frá því krónunni var fleytt árið 2001 og kennd er við verðbólgumarkmið, þar sem eina stýritækið er vextir.

Niðurstaða skýrsluhöfunda, sem vart geta talist hlutlausir, er sú að Seðlabankinn hafi byggt peningastefnu sína á “hugmyndum hagfræðinnar um besta fyrirkomulag peningamála”. Það  sem úrskeiðis fór er svo að mestu skrifað á gerð íslensks þjóðarbúskapar, óvenjulegar aðstæður, alþjóðavæðingu innlends fjármálakerfis og ofvöxt þess og fleira í þeim dúr.  Yfirsóp af þessu tagi vekur mann óneitanlega til umhugsunar um hvort núverandi stjórnendur Seðlabankans séu á réttri leið.
Þótt í Sérriti Seðlabankans sé vitnað í sæg af heimildum, þá hlýtur að teljast dularfullt að geta ekki skýrslu sem nóbelsverðlaunahafinn og hagfræðingurinn Joseph Stiglitz skrifaði fyrir Seðlabankann árið 2001 “Monetary and exchange rate policy in small open economies: The case of Iceland”. Hún fjallar nákvæmlega um sama efni og Sérritið.
Stiglitz, sem er sérfræðingur í fjármálakreppum, taldi Ísland árið 2000 hafa mörg einkenni sem leitt gætu til kreppu. Hann hvatti því stjórnvöld og Seðlabanka til að grípa þegar til margvíslegra aðgerða til að afstýra hugsanlegri fjármálakreppu. Því var ekki sinnt.
Engu er líkara en að Seðlabankinn hafi stungið skýrslu Stiglitz ofan í skúffu. Kannski var hún á skjön við þá stefnu sem Seðlabankinn taldi “besta fyrirkomulag peningamála”. Enda varaði Stiglitz beinlínis við því að einblínt væri á verðbólgumarkmið og líka því að treysta á vaxtatækið eitt og sér.  Maður spyr sig hverjir báru ábyrgð á því að þessum viðvörunum hans var ekki sinnt? Eru þeir sömu kannski enn í lykilstörfum innan Seðlabankans?
Í síðari hluta Sérrits Seðlabankans er vikið að hugsanlegum úrræðum til að auka stöðugleika eftir að höftum sleppir. Þar eru reyndar talin upp mörg af þeim meðulum sem Stiglitz mælti með þótt höfundar Sérritsins kjósi fremur að vitna í aðrar heimildir.
Seðlabankinn leggur til að þegar höftum lýkur verði tekin upp stefna sem hann vill kalla “verðbólgumarkmið-plús” þar sem plúsinn stendur fyrir að þeim tækjum verði beitt sem lýst er í kafla 6 í Sérritinu, í stað þess að treysta eingöngu á stýrivexti. Það hljómar í sjálfu sér ágætlega, en þó má aldrei gleyma því að markmið peningastefnu er ekki stöðugleikinn í sjálfu sér, heldur hlýtur markmiðið ávallt að vera aukin hagsæld almennings í landinu.
Þá víkur að þeim hluta Sérritsins sem vekur allra mesta furðu. En það er sá kafli sem fjallar um að gengi krónunnar hafi rýrnað um 99,95% á 90 ára tímabili í samanburði við dönsku krónuna. Ekki er minnst á þá staðreynd að á sama tíma tókst að koma landinu úr hópi fátækustu þjóða Evrópu í hóp ríkustu þjóða í heimi. Hér óx hagsæld margfalt hraðar en í Danaveldi á þessu tímabili.
Verðrýrnun krónunnar er í Sérritinu talin vísbending um getuleysi Íslendinga til að halda úti eigin gjaldmiðli. Á blaðsíðu 13 kemur reyndar fram að hér hefur atvinnustig að jafnaði verið hærra en í löndum sem notið hafi lægri verðbólgu. Menn geta svo auðvitað haft skoðun á því hvort sé verra þjóðarböl viðvarandi atvinnuleysi eða viðvarandi verðbólga, en um það stendur valið að nokkru leiti.
Höfundar Sérritsins skoða einnig kosti og galla þess að taka hér upp aðra mynt og telja “Veigamikil rök hníga að því” að festa gengið við evru, frekar en dollar eða aðrar myntir og vísa þar til neðanmálsgreinar sem segir einmitt “veigamikil rök hníga að því að tengja við stærri gjaldmiðil eins og evru eða Bandaríkjadollar”.  En hver eru þá þessi veigamiklu rök? Því er ekki svarað í Sérritinu enda eru þau vandfundin. Kannski veit Ríkisstjórnin svarið og þá væri auðvitað heiðarlegast að vitna í þá heimild.
Reyndar er minnst á það í sérritinu að íslenska hagkerfið hefur afar litla fylgni við hagkerfi evrulands og í raun er fylgnin öfug á framboðshliðinni.  Í Sérritinu er lítið gert úr þessu þótt ljóst megi vera að afleiðingarnar af inngöngu í slíkt myntbandalag gæti haft skelfilegar afleiðingar fyrir Ísland. Þess í stað er rætt um ætlaða kosti stórra myntsvæða og hér sé því best að taka upp evru og þá ganga í Evrópusambandið til að fá stuðning Seðlabanka Evrópu.
Hvergi er minnst á þá staðreynd að sífellt fleiri málsmetandi hagfræðingar telja framtíð evrunnar vægast sagt þyrnum stráða og ekki séð fyrir endann á þeirri skuldakreppu sem nú geisar í evrulandi.
Rétt er að benda á það sem vel er gert í Sérritinu og í því má finna margvíslegan fróðleik. Ágætlega er fjallað um þær hættur sem felast í því að taka einhliða upp evru eða aðrar myntir, hvort sem það er gert með myntráði eða öðrum hætti.
Höfundar Sérritsins fá líka plús fyrir að halda því til haga á bls. 44 að fjöldi rannsókna og reynsla annara ríkja sýnir að aðhaldsaðgerðir á útgjaldahlið eru vænlegri leið til að greiða niður skuldir ríkissjóðs en sú leið að auka skattaálögur á fyrirtæki og heimili. Fjármálaráðherra mun eflaust fagna þessum fréttum.
Fyrir þá sem vilja kynna sér hvað gæti tekið við er höftum sleppir mæli ég með kafla 5. “Umbætur á umgjörð efnahagsstefnunnar” og kafla 6. “Breytingar á útfærslu verðbólgumarkmiðsins”.
Einnig mæli ég eindregið með því að allir lesi skýrslu Stiglitz frá 2001.
Að lokum þetta. Sérrit Seðlabankans um Peningastefnu eftir höft hefði gjarnan mátt sleppa því að sópa yfir þau afdrifaríku  mistök sem hávaxtastefnan var í reynd. Sérritið bætir svo gráu á svart með því að gera lítið úr þeirri vá sem þjóðinni er búin með fasttengingu við evru. Einnig er dapurlegt að hvergi sé getið skýrslu Stiglitz sem varaði við og benti á úrræði árið 2001. Ef menn eru á annað borð að verja tíma í að greina hvað fór úrskeiðis í peningastefnunni þá þarf um leið að svara því hvers vegna menn hlustuðu ekki á aðvaranir sem bárust í tæka tíð.