Þingræða á eldhúsdögum

Virðulegi forseti,  kæru landsmenn

Í þessari stuttu ræðu langar mig til að vekja athygli á ólíkum hagsmunum bankakerfisins og fólksins í landinu og mikilvægi þess að í því efni verði komið á betra jafnvægi en nú er. Ég tel að stjórnmálamenn allra flokka ættu að geta sameinast um þetta markmið.

En áður en ég vík að bankakerfinu, vil ég nota tækifærið til að fagna þeim mikla árangri sem ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hefur náð á fyrsta ári kjörtímabilsins. Ekki síst með vel útfærðum aðgerðum í þágu skuldsettra heimila, en skuldir þeirra hafa tvöfaldast á tuttugu árum og íslensk heimili með þeim skuldsettustu í heimi.

Ég er því vægast sagt undrandi á því hvað stjórnarandstaðan hefur barist hatrammlega gegn því að komið sé til móts við heimilin með aðgerðum sem lækka skuldir og hvetja til sparnaðar. Þessi úrræði geta nýst 100 þúsund heimilum. Skuldir þeirra geta lækkað um 150 milljarða á næstu þrem árum án verulegra aukaverkana fyrir hagkerfið eða ríkissjóð. Úrræðin draga úr því misrétti sem skapaðist eftir hrun, en áður höfðu 13 þúsund heimili fengið 46 milljarða niðurfærslu með 110% leiðinni og gengislánadómar hafa skilað 108 milljörðum til 9 þúsund heimila.

Nú líður að því að heimilin geti sótt um þátttöku í leiðréttingu og skattfrjálsri nýtingu séreignasparnaðar og því ber að fagna. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim sem hafa lagt af mörkum til að gera þessi mikilvægu úrræði að veruleika.

En víkjum nú að bankakerfinu og peningamálum

Á meðan atvinnurekendur og launafólk karpa um kaup og kjör, rennur allt of stór hluti af verðmætasköpun atvinnulífsins til bankanna. Á síðasta ári var hagnaður stóru bankanna þriggja samtals 66 milljarðar. Til að setja þessa tölu í samhengi, er hagnaður bankanna ríflega 600 þúsund kr á hvert heimili í landinu.

Bankar, hafa vissulega mikilvægu hlutverki að gegna – að miðla fé frá sparifjáreigendum til lántakenda –  en því miður geta bankar einnig búið til peninga úr engu og þar er vandinn. Aðferð banka við peningamyndun var nákvæmlega lýst í nýlegri skýrslu Englandsbanka. Í framhaldi af því birti Financial Times grein þar sem færð eru rök fyrir því að bönkum verði bannað að búa til peninga. Umræðan um peningavaldið, sem lengi hefur verið á jaðrinum er nú loks komin í sviðsljósið.

Peningar sem bankar búa til eru í formi innstæðna sem við landsmenn notum í staðinn fyrir seðla í viðskiptum. Jafnvel ríkissjóður tekur við bankapeningum til greiðslu á sköttum.

Peningafölsun er alvarlegur glæpur. Ástæðan er sú að þegar falsaðir peningar fara í umferð þá minnkar kaupmáttur þeirra peninga sem fyrir eru. Sá hagnast sem fær að búa til peninga og skipta þeim fyrir raunveruleg verðmæti, allir aðrir tapa. Hvers vegna leyfum við einkabönkum að búa til peninga úr engu og það með ríkisábyrgð?

Í mörgum ríkjum hafa orðið bankahrun vegna misnotkunar banka á peningavaldinu. Hér fimmfölduðu bankarnir peningamagn í umferð á fimm árum. Það endaði með ósköpum. Gjaldmiðillinn hrundi og við sitjum uppi með fjármagnshöft.

Enn hafa bankar heimild til að búa til peninga úr engu. Það hlýtur að vera eitt  brýnasta verkefni þingsins að mynda sér skoðun á þvi og bæta úr.

Vandamálið er reyndar ekki sér-íslenskt. En Ísland er sjálfstæð þjóð með sjálfstæða mynt og gæti því orðið eitt af fyrstu ríkjum heims til að taka upp betra fyrirkomulag í peningamálum.

Hér munu að sjálfsögðu takast á hagsmunir almennings og bankanna. Spurningin er hvort ágóði af peningamyndun á að renna í sameiginlegan ríkissjóð þjóðarinnar eða hvort ágóðinn á að enda í vösum þeirra sem eiga bankana. Hér er um að ræða tugi milljarða á ári. Hundruð þúsunda króna á hvert heimili.

Í vetur skipaði forsætisráðherra sérfræðihóp til að skoða hvernig peningamyndun hefur verið háttað hér á landi og meta árangur þess fyrirkomulags sem við höfum búið við og koma með tillögur að úrbótum. Hópurinn mun skila niðurstöðum í haust sem verða vafalaust áhugaverðar.

Virðulegi forseti,

Ég vil hvetja alla landsmenn til að kynna sér þetta hagsmunamál og velta því fyrir sér hvernig einkabankar hafa farið með peningavaldið hingað til og hvort hugsanlega sé tímabært að koma því í öruggari höfn.

Peningamál þjóðarinnar eru í hugum margra stórt vandamál, en í stórum vandamálum eru oft fólgin mikil tækifæri. Að mínu mati bendir allt til þess að hér sé einmitt tækifæri til að breyta veikleika okkar smáa gjaldmiðils í styrk og stöðugleika. Tækifæri til að draga úr þeim mikla kostnaði og áhættu sem fylgir bankakerfinu og bæta um leið lífskjör alls almennings.

Kæru landsmenn, framundan eru ótal tækifæri og fullt tilefni til að horfa björtum augum til framtíðar.

Góðar stundir og gleðilegt sumar.