Svartfjallaland: Með evru og hærri vexti en á Íslandi

svartfjallalandFyrir tveim vikum heimsótti varaforseti þjóðþings Svartfjallalands, Hr. Branko Radulovic, Alþingi. Við áttum stuttan fund um efnahagsmálin. Hr.Branko hafði mikinn áhuga á að vita hvernig Íslandi hefði tekist að komast svona hratt á réttan kjöl eftir hrun bankakerfisins og spurði: „Hver er íslenska formúlan?“  Ég sagðist ekki vita um neina formúlu en reyndi samt að tína fram einhverjar skýringar.

Það var jú töluverð landkynning að hér varð eitt stærsta bankahrun sögunnar og ekki síður þegar Eyjafjallajökull stöðvaði alla flugumferð í Evrópu. Krónan féll og þá varð ódýrt að heimsækja fréttnæma landið sem áður var svo dýrt. Ferðaþjónusta blómstraði í kjölfarið og var orðin ein mikilvægasta atvinnugrein landsins. Aflabrögð í sjávarútvegi höfðu verið með allra besta móti og við bættist að makríllinn fór að ganga inn í íslenska lögsögu. Það mátti vissulega þakka batann hagfelldum aðstæðum.

Auk þess hafði fólk og fyrirtæki verið fljót að aðlagast, nýsköpun af ýmsu tagi hafði blómstrað eftir hrun.  Svo mátti bæta við að dómstólar lækkuðu ólögmæt gengislán auk þess sem stjórnvöld réðust í aðgerðir til að lækka skuldir heimila. Lækkunin hafi verið fjármögnuð með skatti á banka og slitabú gömlu bankanna. Þjóðin hafi í þjóðaratkvæðagreiðslu ákveðið að láta reyna á það fyrir dómi hvort henni bæri að ábyrgjast skuldir fallinna einkabanka og unnið málið. Skuldir heimila, fyrirtækja á Íslandi hafi farið lækkandi undanfarin ár og kaupmáttur vaxandi. Hagvöxtur hafi verið ágætur og atvinnuleysi sem varð hæst 9% árið 2010 væri nú að nálgast 4% og útlit væri fyrir áframhaldandi góðan hagvöxt.

Hvernig gengur þar?
Ég vildi forvitnast um hvernig efnahagurinn væri í Svartfjallalandi. Hr. Branko hafði því miður ekki jafn góðar fréttir. Nefndi meðal annars að atvinnuleysi væri þar ríflega þrefalt meira en hér á landi, halli af viðskiptum við útlönd og erlendar skuldir vaxandi. Tilefni heimsóknar hans til Íslands væri einmitt að finna leiðir til að bæta efnahagsástandið heima fyrir. Hr. Branko hafði frétt af skýrslu minni um umbætur í peningamálum Íslands og hafði ýmsar spurningar um innihaldið. Eftir að hafa rætt það málefni kvöddumst við með óskum um bættan hag beggja landa.

Ekki með sjálfstæðan gjaldmiðil
Svartfjallaland, sem er rómað fyrir einstaka náttúrufegurð, gott veður og ýmsar auðlindir en hefur ekki haft eigin gjaldmiðil. Frá árinu 2002 hefur landið notast við evruna og þar á undan þýska markið. Það kemur á óvart að þrátt fyrir evru eru vextir hærri í Svartfjallalandi en hér á Íslandi. Lán til íbúðakaupa bera um 10% vexti. Hr. Branko nefndi að margir Svartfellingar hafi freistast til að taka íbúðalán í svissneskum frönkum á mun lægri vöxtum, þrátt fyrir að vera með laun í evrum. Þeir urðu fyrir miklu tjóni 15. janúar síðastliðinn þegar frankinn hækkaði skyndilega um 23% gagnvart evru.

Hér á landi hafa menn haft væntingar um að upptaka evru eða dollars á Íslandi myndi tryggja lægri vexti. Reynslan frá Svartfjallalandi sýnir að það er alls ekki öruggt. Sumir hafa haldið því fram að vextir myndu lækka ef erlendir bankar myndu hefja hér starfsemi. Í Svartfjallalandi starfa margir erlendir bankar en samt eru vextirnir þar hærri en hér.

Gengi evru tekur aðallega mið af efnahagsaðstæðum í Þýskalandi sem eru gerólíkar aðstæðum í Svartfjallalandi. Afleiðingar þess að vera með of sterkan gjaldmiðil eru vel þekktar: viðskiptahalli, skuldasöfnun við útlönd og mikið atvinnuleysi. Þetta þýðir að verðmætasköpun verður ekki eins mikil og lífskjör ekki eins góð. Svartfjallaland býr vissulega við stöðugan gjaldmiðil en vandinn er að hann er of sterkur.

Evruaðild dregur úr sjálfstæði
Sé litið til Grikklands má sjá hvernig aðild að myntbandalagi dregur úr sjálfstæði aðildarríkja. Grikkland tók upp evru 2001 og bjó næsta áratuginn við of lága vexti sem leiddu til ofþenslu og skuldasöfnunar. Þegar kreppan kom var eina leiðin sú að fara í handvirkar lækkanir á launum. Seðlabanki myntbandalagsins, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og Framkvæmdastjórn ESB (þríeykið) hafa fyrirskipað stjórnvöldum í Grikklandi að skera niður, lækka laun og selja ríkiseignir. Verði það ekki gert fái Grikkir engin neyðarlán, þá myndu bankarnir fljótt lokast og öngþveiti taka við.

Atvinnuleysi í Grikklandi er um 26% og helmingur ungs fólks er atvinnulaus. Landsframleiðsla er fjórðungi minni en hún var fyrir hrun og lítill hagvöxtur fram undan. Aðildin að evrunni átti stóran þátt í að skapa þennan vanda og hún gerir batann torsóttari.  Reynsla Grikkja sýnir að sjálfstæður gjaldmiðill er forsenda þess að þjóðir geti varðveitt fullveldi sitt. Lýðræðið sjálft veikist ef erlend stjórnvöld sem enginn kaus fá vald til að skipa lýðræðislega kjörnum fulltrúum fyrir verkum.

Dæmin sýna að upptaka evru er ekki trygging fyrir lægri vöxtum og þjóðir sem taka upp erlenda mynt geta hæglega tapað efnahagslegu sjálfstæði sínu í leiðinni. Það er betra að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil sem getur brugðist við þegar áföll dynja á hagkerfinu og þannig stuðlað að auknum hagvexti, betra atvinnustigi og bættum lífskjörum í landinu.