Stóra hagsmunamálið

Printing-press-cartoonÉg velti því fyrir mér hvort almenningur myndi sætta sig við það að einkabönkum væri leyft að búa til peningaseðla að vild. Líklega myndu fáir sætta sig við það.  Samt er bönkum leyft að búa til innstæður að vild, innstæður sem við notum í staðinn fyrir peningaseðla. Afleiðingar af þessu fyrirkomulagi eru býsna alvarlegar: óstöðugt peningakerfi, viðvarandi verðbólga, þyngri vaxtabyrði allra í þjóðfélaginu og skuldir ríkissjóðs eru hundruðum milljarða hærri en annars væri. Myndi almenningur ekki krefjast umbóta ef hann vissi hvernig þessu er háttað?

Það kann að koma mörgum á óvart hversu sáralítið brot af þjóðargjaldmiðlinum er búið til af Seðlabankanum. Seðlabankinn hefur vissulega búið til 40 milljarða í seðlum, sem er þó minna en 10% af því peningamagni sem við notum frá degi til dags. Almenningi finnst þægilegra að greiða rafrænt fyrir vörur, skuldir og skatta með innstæðum af hlaupareikningi, eða með greiðslukorti sem greiðist af hlaupareikningi mánaðarlega.

Fólk þarf að vita að allar innstæður á hlaupareikningum voru upphaflega búnar til af einkabönkum. Bankar búa til innstæður þegar þeir veita lán, þegar þeir greiða laun eða þegar þeir kaupa eignir. Innstæða er loforð bankans um að afhenda seðla þegar þess er óskað, en við viljum aldrei nema hafa nema lítið af seðlum því innstæður eru þægilegri. Nema traust á bankann hverfi. Þá vilja innstæðuhafar allir taka út seðla sem bankinn getur vitanlega ekki útvegað. Ríkissjóður neyðist þá yfirleitt til að gangast í ábyrgðir til að fyrirbyggja fall bankans, einkum ef bankinn gæti dregið aðra banka með sér í fallinu.

Við peningafölsun liggur þung refsing. Góð og gild ástæða er fyrir því. Sá sem falsar seðla rænir hluta af kaupmætti peningastofnsins fyrir sjálfan sig. En ef banki býr til innstæðu og lánar hana út þá telst það ekki lögbrot. Þó hefur peningaaukning af völdum banka jafn neikvæð áhrif og peningafölsun. Þetta er alvarleg glufa í peningakerfinu. Glufa sem við höfum leyft einkabönkum að nýta sér á kostnað alls samfélagsins. Fyrst fölsun peningaseðla er bönnuð þá ætti einnig framleiðsla banka á innstæðum sem hafa ígildi peninga að vera bönnuð.

Telji einhver það gott að einkabankar megi búa til innstæður, má spyrja hann hvort Seðlabankinn ætti þá ekki að líka að leyfa einkabönkum að búa til peningaseðla? Vonandi finnst engum það góð hugmynd. Því þegar Seðlabanki setur nýja peningaseðla í umferð getur ríkissjóður notað andvirðið til að lækka skuldir sínar. Það mætti því segja að ef Seðlabanki hefði aldrei búið til þessa 40 milljarða í seðlum, en fengið einkabönkum það verkefni, þá væru skuldir ríkissjóðs 40 milljörðum hærri en raun ber vitni. Sömuleiðis er þá ljóst að ef Seðlabanki myndi sinna því verkefni að búa sjálfur til þær innstæður sem þjóðfélagið þarf, í stað þess að leyfa einkabönkum að búa þær til, þá væru skuldir ríkissjóðs hátt í 400 milljörðum lægri en þær eru í dag.

Lausn vandans felst í meginatriðum í því að banna öðrum en Seðlabanka að skapa peninga. Um leið þarf Seðlabankinn að gæta þess að hæfilegt magn af seðlum og innstæðum sé til staðar í hagkerfinu á hverjum tíma. Bankar munu eftir sem áður hafa það hlutverk að taka við sparifé og veita lán, en þeir mættu ekki framar búa til peninga.

Af hverju er ekki löngu búið að breyta þessu? Ástæðan er sú að allt of fáir vita hvernig málum er háttað og almenningur hefur því ekki gert kröfu um úrbætur í þessu stóra hagsmunamáli sínu. Á meðan svo er, má búast við að bankar haldi áfram að græða á peningaprentun á kostnað alls almennings í landinu. Ég vil hvetja fólk til að kynna sér þetta vel t.d hér: www.betrapeningakerfi.is

(Greinin birtist í DV 31. júlí 2013)