Stærsta einstaka viðskiptatækifæri þjóðarinnar

Viðtal birt í Morgunblaðinu 30. ágúst. 2012/ blm. Hörður Ægisson
Frosti Sigurjónsson hefur komið víða við í atvinnulífinu og meðal annars stofnað tæknifyrirtækið Dohop. Eftir hrun bankanna hefur hann hins vegar látið efnahagsmál sig meiru varða.
  • Vill umbylta peningakerfinu og gera viðskiptabönkum ókleift að geta búið til nýja peninga
  • Tugmilljarða árlegur myntsláttuhagnaður bankanna
  • Bankarnir eru með „kverkatak“ á þjóðinni við núverandi kerfi
  • Fjármálakreppan hefur opinberað vandamál peningakerfisins
  • Lausnin hefur verið þekkt í 80 ár
  • Ný skýrsla AGS staðfestir gríðarlegan ávinning af því að endurbæta peningakerfið
  • Ekki hægt að skamma Seðlabankann þar sem bankarnir hafa verið í ekilssætinu
  • Ísland hefur einstakt tækifæri til að taka af skarið
  • Flokkar sem setja þetta mál á oddinn munu sópa að sér fylgi

Frosti Sigurjónsson kemur ekki fyrir sjónir sem hinn hefðbundni byltingarmaður. Hann er viðskipta- og rekstrarhagfræðingur að mennt og hefur komið víða við í íslensku viðskiptalífi undanfarna tvo áratugi; meðal annars verið forstjóri Nýherja, fjármálastjóri Marels og á síðustu árum hefur hann einkum sinnt störfum sínum sem stjórnarmaður í fjármálafyrirtækinu Arctica Finance, auk þess að starfa við ráðgjöf, fjárfestingar og vera stjórnarformaður Dohop og Datamarket.Frá falli fjármálakerfisins á Íslandi haustið 2008 hefur Frosti hins vegar í auknum mæli látið sig þjóðfélagsleg mál varða – og þá ekki síst efnahagsmál og fjármálamarkaði. Í viðtali við Morgunblaðið útlistar hann hugmyndir, sem njóta vaxandi fylgis á heimsvísu, um hvernig megi draga úr sveiflum í hagkerfinu og ná tökum á eignabólum og skuldakreppum. Hann telur ljóst að í þeim efnum dugar ekki að lappa upp á kerfið með því að setja plástra hér og þar heldur þurfi þvert á móti að umbylta peningakerfinu.

„Þrátt fyrir að ríkisábyrgð á innstæðum yrði afnumin að fullu,“ segir Frosti, „þá er ljóst að slíkt afnám væri aðeins að nafninu til ef ekki kæmi til kerfisbreytinga á peningakerfinu. Bankarnir yrðu eftir sem áður það stórir og þjóðhagslega mikilvægir að þegar þeir myndu lenda í erfiðleikum, bankar sem sinna allri okkar greiðslumiðlun, þá er öll þjóðin í slíkum vanda að hún telur sig ekki eiga neinn annan valkost en að forða þeim frá greiðsluþroti með fjármunum skattgreiðenda. Það er því eins og þeir séu í raun með kverkatak á þjóðinni. Um leið og þeir missa fótanna grípa þeir um háls þjóðarinnar til að reisa sig við aftur. Þetta er skelfilegt ástand,“ segir Frosti.

Lausnin þekkt í 80 ár

„Mér finnst ótti hagfræðinga, sem eru vandir að virðingu sinni, við að skoða nýjar hugmyndir vera inngróinn. Hagfræðingur sem byrjar að berjast fyrir byltingarkenndri hugmynd óttast að vera gjaldfelldur ef hún reynist ekki standast nánari skoðun. Menn kjósa því frekar að bíða og sjá – og stjórnmálamenn gera slíkt hið sama. Þeir vilja ekki taka frumkvæðið fyrr en hugmyndin hefur þegar verið tekin gild og fengið brautargengi í umræðunni,“ segir Frosti.

„Lausnin hefur hins vegar verið þekkt í áttatíu ár,“ að sögn Frosta, og vísar til þeirra hugmynda sem nokkrir af fremstu hagfræðingum Bandaríkjanna á þeim tíma settu fram þegar kreppan mikla stóð sem hæst. Þær hugmyndir um endurbætur á peningakerfinu, sem hafa verið nefndar „Chicago-áætlunin“, gera ráð fyrir aðskilnaði peningamyndunar og útlánastarfsemi bankakerfisins, með því að krefjast 100% bindiskyldu á lausar innstæður. „Bönkum og öðrum en Seðlabankanum verði gert óheimilt að búa til peninga – svokallaðar rafkrónur – og þess í stað verði því valdi komið í skjól til Seðlabankans sem verði eini aðilinn sem hafi heimild til að auka peningamagn í umferð með verðstöðugleika og þjóðhagsleg markmið að leiðarljósi.“ Frosti bendir á að með þessu móti geti bankar ekki lengur hesthúsað tugi milljarða árlega í myntsláttuhagnað á kostnað landsmanna – heldur myndi sú upphæð fara til ríkisins.

„Þetta er of gott tækifæri til að láta það renna okkur úr greipum,“ bætir hann við. „Mér sýnist að þetta sé stærsta og besta einstaka viðskiptatækifæri þjóðarinnar. Við tölum oft um þann fjárhagslega ávinning fyrir þjóðina sem fylgir því að virkja eða hugsanlega finna olíu. En þarna er um að ræða viðskiptatækifæri sem gæfi árlega tugi milljarða króna í vasann fyrir þjóðina.“

Bankar búa til rafkrónur

Í kjölfar fjármálakreppunnar hafa ýmsir hagfræðingar vakið athygli á því að peningakerfið sé gallað og hafi verið það í mjög langan tíma – bæði hér heima og í flestum öðrum ríkjum á Vesturlöndum. Að sögn Frosta stafar vandamál peningakerfisins af því að það eru í raun viðskiptabankarnir, en ekki Seðlabankinn, sem stýra peningamagni í umferð. „Einkareknar innlánsstofnanir hafa leyfi til að framleiða peninga, sem útlán og lausar innstæður, og stýra þannig peningamagni í hverju landi út frá sínum eigin hagsmunum. Afleiðingarnar eru meðal annars óstöðugt verðlag, rýrnun gjaldmiðla, eignabólur og fjármálakreppur, bakábyrgð skattgreiðenda á bönkum, og sívaxandi skuldasöfnun almennings og ríkissjóða.“

Aðspurður hvernig bankar fara að því að búa til rafkrónur með útlánum, bendir Frosti á að það sé því miður þrálátur misskilningur að bankar þurfi að safna innlánum og hlutafé til að fjármagna útlán. „Staðreyndin er aftur á móti sú að viðskiptabankar geta búið til nýjar rafkrónur og lánað þær út til viðskiptavina svo lengi sem bankinn uppfyllir skilyrði um eiginfjárhlutfall. Viljugur lántaki er því allt sem banki þarf til að setja nýjar krónur út í hagkerfið.“ Fjármálaeftirlitið gerir þá kröfu til viðskiptabankanna að þeir viðhaldi 16% eiginfjárhlutfalli um þessar mundir – sem er tvöfalt meira en var reyndin fyrir fall fjármálakerfisins – og því geta bankarnir veitt lán sem nema ríflega sexföldu eigin fé þeirra.

„Þegar banki veitir lán getur hann gert það með því einfaldlega að hækka innstæðuna á hlaupareikningi lántakandans,“ segir Frosti, og bætir því við að slíkar viðbótarrafkrónur séu ekki tilfærsla á sparnaði heldur einfaldlega aukning á peningamagni í umferð í hagkerfinu. „Rafkrónur, sem bankar búa til með þessum hætti, eru jafngjaldgengar í viðskiptum og seðlar og mynt sem Seðlabankinn setur í umferð. Krónan er því í raun fengin að láni frá bönkum,“ útskýrir Frosti. „Á meðan Seðlabankinn hefur sett alls um 40 milljarða króna í seðlum og mynt í umferð hafa bankarnir búið til um þúsund milljarða af rafkrónum (lausum innstæðum). Með öðrum orðum þá eru það bankarnir sem eru í aðalhlutverki við framleiðslu gjaldmiðilsins.“

Tugmilljarða myntsláttuhagnaður

Þessar óbundnu innstæður í bankakerfinu, sem nema um þúsund milljörðum króna, bera litla sem enga vexti. Frosti bendir á að á móti þeim eiga bankarnir útlán og fá vart minna en 5% vexti af þeim. „Fimm prósenta vaxtamunur af þúsund milljörðum gefur því bönkunum um 50 milljarða króna í tekjur árlega. Miðað við þá forsendu að bankarnir greiði um 10 milljarða árlega í kostnað af greiðslumiðlun, sem er líklega ríflega áætlað má leiða að því líkur að myntsláttuhagnaður þeirra af því að búa til rafkrónur nemi árlega um 40 milljörðum króna,“ segir Frosti, sem telur nauðsynlegt að binda enda á þetta fyrirkomulag og að sett verði lög um að bankar megi ekki búa til nýjar rafkrónur.

Í kjölfarið gætu bankar aðeins lánað út sitt eigið fé og bundin innlán sem þeir afla. Greinarmunur yrði hins vegar gerður á innstæðureikningum sem væru ávallt lausir til úttektar og innlánsreikningum sem yrðu bundnir til einhvers tíma og bæru vexti. „Bankar gætu því einvörðungu lánað út og ávaxtað það fé sem lagt væri á bundna sparireikninga,“ útskýrir Frosti, en á sama tíma myndu þær krónur, sem geymdar væru á óbundnum innstæðureikningum, ekki bera neina vexti. „Bönkum væri skylt að flytja þær krónur viðstöðulaust á geymslureikning í Seðlabankanum og gætu því ekki lánað út þær rafkrónur sem væru á óbundnum reikningum.“

Bankar mættu fara í þrot

Það er til mikils að vinna að stíga slíkt skref í átt að fullri bindiskyldu að mati Frosta. „Möguleikinn á bankaáhlaupi væri úr sögunni því bankar myndu ávallt eiga nægt fé til að greiða út innstæður á hlaupareikningum. Að sama skapi væri ekki lengur þörf á innstæðutryggingum. Illa reknir bankar gætu farið á hausinn án þess að það myndi valda keðjuverkun fyrir allt hagkerfið. Þannig væri búið að skilja í sundur tvö ólík verkefni: framleiðslu fjármagns og ávöxtun sparifjár. Bankar á brauðfótum gætu þá ekki falið misheppnuð útlán með framleiðslu meiri peninga.“

Ákvarðanir um framleiðslu peninga yrðu því ekki lengur í höndum einkabanka. Sú leið sem Frosti leggur til er að peningastefnunefnd, skipuð óháðum sérfræðingum, myndi reglulega leggja mat á hvort nauðsynlegt væri að auka peningamagn í umferð til að mæta þjóðhagslegum markmiðum. Þegar tekin væri ákvörðun um að auka þyrfti peningamagn í umferð, í samræmi við væntingar um stærð hagkerfisins, væri nýjum rafkrónum einfaldlega bætt inn á innstæðureikning ríkissjóðs. „Viðbótin væri ekki lán til ríkisins,“ segir Frosti, „heldur nýir peningar sem ríkið gæti notað til að mæta ríkisútgjöldum, greiða niður skuldir ríkisins eða lækka skatta.“ Verðstöðugleiki yrði ennfremur meiri, því bankarnir væru „ekki að freistast til að auka stöðugt fjármagn í umferð“.

Á síðustu áratugum hefur árangur íslenskra peningamálayfirvalda að viðhalda stöðugu verðlagi vægast sagt verið blendinn – og oftar en ekki hefur verðbólga reynst töluvert umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans. Blaðamanni leikur því forvitni á að vita af hverju Frosti telur að reyndin verði einhver önnur í þessu tilfelli. „Við verðum að skoða söguna,“ svarar Frosti, og bendir á að Seðlabankinn hefur undir núverandi peningakerfi í raun ekki þau nauðsynlegu tæki og tól til að hafa stjórn á peningamagninu. „Bankarnir hafa algjörlega verið í ekilssætinu. Að skamma Seðlabankann fyrir að hafa ekki haft stjórn á peningamagni og verðbólgu er því í raun hlægilegt. Hann hefur ekki haft nein úrræði. Gefum honum frekar alvöruvöld og skömmum hann síðan ef hann fer illa með þau völd. Það er búið að hengja bakara fyrir smið í töluvert langan tíma. Sökin á óstöðugu verðlagi liggur hjá bönkunum.“

Blaðamaður bendir þá á að sumir myndu freistast til að álíta að með slíkum aðgerðum, þar sem peningavaldið væri tekið af bankakerfinu og sett í hendur ríkisins væri í raun verið að ríkisvæða fjármálakerfið. Frosti segir það ekki allskostar rétt. „Þótt bankakerfið yrði vissulega miklu minna í sniðum frá því sem nú er þá myndu einkabankar eftir sem áður bjóða upp á innlánsreikninga, lánveitingar, greiðslumiðlun, gjaldeyrisviðskipti og flest sem heyrir til bankastarfsemi í dag.“

Frosti ítrekar að þessar tillögur um endurbætur á peningakerfinu miði því ekki að ríkisvæðingu á bankastarfsemi. „Það verður áfram í höndum einkaaðila að ávaxta sparifé og taka ákvarðanir um hverjir fái lánaða peninga. Það er einungis stjórnun peningamagnsins sem verður að vera í höndum ríkisins. Að hafa valdið til að geta búið til peninga er eitt af því fáa sem einkaframtakinu er ekki betur treyst fyrir heldur en ríkisvaldinu. Hagsmunir hluthafa bankanna fara ekki saman við hagsmuni almennings í þessum efnum. Niðurstaðan verður að lokum ekki samkeppni í bankarekstri heldur einokun.“

Bankakerfið enn alltof stórt

Þegar blaðamaður spyr hvernig aðlögun frá núverandi ástandi færi fram, þar sem ljóst er að slíkar endurbætur á peningakerfinu verða ekki innleiddar á skömmum tíma, þá segist Frosti leggja það til að sú upphæð, sem nú er í lausum innstæðum í bankakerfinu – hátt í þúsund milljarðar króna – færist yfir á efnahagsreikning Seðlabanka og verði um leið skuld Seðlabankans við innstæðueigendur. „Á móti myndi Seðlabankinn eignast jafnháa kröfu á viðskiptabankana sem myndi síðan innheimtast jafnóðum og útlánasafn bankanna innheimtist – hugsanlega á tíu árum. Bankarnir hefðu því góðan tíma til að laga rekstur sinn að breyttu umhverfi,“ telur Frosti, sem bendir ennfremur á að það sé ólíklegt að innstæðueigendur myndu vilja hafa þúsund milljarða á vaxtalausum innstæðureikningum í Seðlabankanum. „Stór hluti þessarar upphæðar yrði því trúlega færður yfir í bundna innlánsreikninga í viðskiptabönkunum sem gæfu vexti.“

Aðspurður segist Frosti ekki telja nóg að stíga einungis það skref, eins og sumir hafa fært rök fyrir, að ráðast í aðskilnað á fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi. „Áhrifin af slíkum aðgerðum væru svo lítil,“ að sögn Frosta, sem segir íslenska bankakerfið enn vera alltof stórt. Hann telur að ef hugmyndir hans um endurbætur á peningakerfinu yrðu að veruleika þyrfti líklega að fækka starfsmönnum í bankakerfinu um helming. „Margt af þessu fólki þyrfti að finna sér ný störf. Ég hef ekki áhyggjur af því. Það er margt hæfileikaríkt fólk sem starfar í bönkunum í dag sem gæti skapað mun meiri verðmæti fyrir hagkerfið ef það myndi skipta um starfsvettvang,“ segir Frosti.

Sökkvum með of stórt akkeri

Sumir hafa bent á, meðal annars forstjóri Fjármálaeftirlitsins, að það sé ekki víst að það myndi endilega þjóna hagsmunum Íslands að ráðast í kerfisumbætur á fjármálakerfinu sem væru ekki í samræmi við það regluverk sem gildir í Evrópusambandinu. Frosti telur hins vegar ekkert mæla gegn því að Ísland taki af skarið í þessum efnum og kynni til sögunnar endurbætur á peningakerfinu. „Það sem ESB gerir er niðurstaða af málamiðlun og ekki endilega sú besta fyrir hagsmuni Íslands. Við höfum hins vegar möguleika á að geta gert það besta – og höfum um leið orðið að fyrirmynd fyrir önnur ríki.“

Frosti segir mikilvægt að Íslendingar grípi þau tækifæri sem eru í boði – í stað þess að standa aðeins á hliðarlínunni og bíða eftir tilmælum frá Evrópusambandinu. „Ef við höfum of stórt akkeri þá sekkur báturinn bara. Mér finnst að við séum alltof oft að burðast með of stóra myllusteina um hálsinn. Við þurfum að losa okkur við þá fjötra hugarfarsins. Getum sagt að við ætlum að hafa peningamyndun með þessum hætti á Íslandi og það myndi ekki breyta neinu hvað varðar viðskipti okkar við aðrar þjóðir til hins verra. Ég held þvert á móti að erlendir fjárfestar myndu sýna Íslandi meiri áhuga.“

Blaðamaður skýtur þá inn í og bendir á mikilvægi þess, í tengslum við væntingar um afnám gjaldeyrishafta, að það fáist erlendir aðilar til að kaupa eignarhlut í íslensku viðskiptabönkunum. Frosti viðurkennir að það myndi reynast þrautin þyngri að laða að slíka fjárfesta samfara þeim endurbótum á peningakerfinu sem hann leggur til. „Viðskiptabankarnir væru vissulega ekki eins góð söluvara eftir að hafa misst einkaleyfi á því að framleiða peninga. Hins vegar myndu erlendir fjárfestar eftir sem áður hafa áhuga á að kaupa í íslenskum fyrirtækjum sem í kjölfarið á þessum breytingum myndu starfa í mun stöðugra og betra efnahagsumhverfi.

Versta frelsið

Frosti segist hafa fundið fyrir miklum áhuga hjá þeim sem eru að berjast fyrir sömu breytingum á peningakerfinu í öðrum löndum. „Þeir átta sig á því að aðstæður eru með öðrum hætti hér á landi. Ísland gæti verið tilraunaglasið sem þeir þyrftu til að sýna fram á að þessar hugmyndir gangi upp í raunveruleikanum. Þess vegna eru þeir fúsir til að koma hingað og leggja til hjálp svo hægt verði að útfæra þetta hér á landi. Þetta myndi því tvímælalaust auka ferðamannastraum hagfræðinga til landsins þar sem Harpa yrði full af fólki á ráðstefnum að ræða það hvort þetta myndi virka fyrir önnur lönd einnig. Þeirra draumur er að hægt verði að innleiða þetta síðar meir í Bretlandi og Bandaríkjunum – en það verður hægara sagt en gert.“Frosti væntir þess að í komandi alþingiskosningum næsta vor muni umræðan í auknum mæli beinast að umbótum á peningakerfinu. „Ég held að næstu kosningar muni öðrum þræði snúast um þetta mál og ég á von á því að sá stjórnmálaflokkur, sem setur þessi mál á oddinn í kosningabaráttunni, muni safna til sín atkvæðum. Og að sama skapi muni þeir stjórnmálaflokkar sem berjast gegn þessum breytingum þurfa að svara því fyrir hverja þeir eru að berjast.“

Aðspurður tekur Frosti undir þá skoðun blaðamanns að það virðist ekki auðveldlega hægt að flokka þessar tillögur undir tiltekna pólitíska hugmyndafræði. „Vinstrimönnum ætti að líka við slíkar hugmyndir þar sem þær ættu að draga verulega úr áhrifum og völdum fjármálakerfisins í samfélaginu. Þeir sem hallast til hægri í stjórnmálum ættu sömuleiðis að styðja þessar endurbætur á peningakerfinu þar sem skattgreiðendur þyrftu í kjölfarið ekki lengur að koma einkafyrirtækjum til bjargar þegar í harðbakkann slægi. Ef þú ert hægri maður þá viltu frelsi með ábyrgð en ekki frelsi með ríkisábyrgð. Það er versta frelsið.“

Skýrsla AGS staðfestir ávinninginn af Chicago-áætluninni

Óvæntur liðsauki berst frá AGS

Frosta og fylgismönnum hans um endurbætur á peningakerfinu barst nokkuð óvæntur en gleðilegur liðsauki fyrr í þessum mánuði þegar ný skýrsla birtist frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, The Chicago Plan Revisited, sem fjallar um þær tillögur sem hagfræðingurinn Irving Fisher og fleiri lögðu fram um miðjan fjórða áratug síðustu aldar. Skýrsluhöfundar setja tillögur Fishers og félaga upp í fullkomið haglíkan í því augnamiði að greina afleiðingar þeirra. Niðurstaðan er fremur skýr: endurbæturnar á peningakerfinu, sem þeir boðuðu fyrir hartnær áttatíu árum, myndu skila þeim árangri sem spáð var – og jafnvel gott betur.Fisher og hagfræðingarnir frá Chicago fullyrtu að ávinningurinn af tillögum þeirra yrði gríðarlegur fyrir bandaríska hagkerfið:

  • Miklu betri stjórn á þeim meginþáttum sem orsaka hagsveiflur, sem eru skyndileg aukning og samdráttur útlána og framboð á peningum sem bankar búa til.
  • Algerlega komið í veg fyrir bankaáhlaup.
  • Gríðarleg minnkun opinberra skulda.
  • Gríðarleg minnkun á skuldsetningu einstaklinga í ljósi þess að peningamyndun byggist ekki lengur á lántöku.

Fram kemur í skýrslu AGS að niðurstaðan staðfestir allar fjórar fullyrðingar Fishers. „Jafnframt verður framleiðsluaukning í hagkerfinu sem nálgast tíu prósent og verðbólga getur orðið engin án þess að það skapi vandamál fyrir framkvæmd peningastefnu.

Frosti segir niðurstöður AGS vera vægast sagt stórtíðindi. „Séu þær réttar er hér komið tækifæri fyrir stjórnvöld til að skapa gríðarlegan ávinning fyrir þjóðina með sáralitlum tilkostnaði.“

Hægt að ná betri árangri með krónuna sem gjaldmiðil

Bankarnir gætu ekki lengur misnotað krónuna með því að auka peningamagn

Allt frá hruni bankanna hefur farið fram talsverð umræða um nauðsyn þess að taka upp erlenda mynt – og hefur þá einkum verið horft til evrunnar í þeim efnum – en þeim mun minna rætt um skynsamlegar leiðir til að ná betri árangri með krónuna sem framtíðargjaldmiðil Íslands.Frosti, sem leggst eindregið gegn því að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu og taki í kjölfarið upp á evru sem gjaldmiðil, viðurkennir hins vegar að þegar hann fór fyrst að skoða valkosti Íslands í gjaldmiðlamálum, „eftir að krónan lenti í þessum hremmingum, þá voru mín fyrstu viðbrögð að hún væri ónýt. Aðrir valkostir sem eru í boði eru þá myntráð, einhliða upptaka annarrar myntar eða aðild að myntbandalagi. En það var alveg sama hvað ég skoðaði, niðurstaðan var ávallt sú að þetta væru síðri valkostir en að vera áfram með krónuna. Og þá stóð eftir sú spurning hvort við gætum ekki bara rekið krónuna betur en við höfum gert fram til þessa.“

Að sögn Frosta munu þær tillögur sem hann leggur til um endurbætur á peningakerfinu, þar sem bönkum verður gert óheimilt að búa til rafkrónur með því að lána út lausar innstæður, gera það að verkum að viðskiptabankar geta ekki lengur misnotað gjaldmiðilinn með því að auka peningamagn í umferð – en sögulega séð hefur gengi krónunnar alltaf fallið mikið í kjölfar útlánaaukningar í bankakerfinu.

„Okkar gjaldmiðill yrði stöðugri en við höfum þekkt til þessa,“ útskýrir Frosti. „Eignabólur og fjármálakreppur yrðu grynnri og myndu vara skemur þar sem peningavaldinu væri komið í skjól frá bönkunum. Fram að einkavæðingu bankanna við síðustu aldamót gátu stjórnmálamenn haft áhrif á útlán í bankakerfinu. Eftir einkavæðingu voru það hins vegar hluthafar bankanna sem höfðu þær ákvarðanir í hendi sér. Peningavaldið hefur því ítrekað verið misnotað í þágu sérhagsmuna.“

Segir frumkvöðla ekki geta stoppað þegar þeir sjá vandamál

„Ef eitthvað er í ólagi getur maður ekki þagað yfir því“

Frosti hefur síður en svo setið auðum höndum á síðustu árum og hefur verið óþreytandi við að kynna hugmyndir sínar – bæði í ræðu og riti – um hvernig megi endurbæta peningakerfið. Blaðamanni leikur hins vegar forvitni á að vita af hverju frumkvöðull á borð við hann, sem hefur komið að stjórnun og rekstri ýmissa upplýsingatæknifyrirtækja, ákvað að beina orku sinni og tíma að þessu viðfangsefni. „Frumkvöðlar geta ekki stoppað þegar þeir sjá vandamál,“ svarar Frosti, „heldur sogast að vandamálinu og hætta ekki fyrr en þeir finna lausn á því. Og núna er ég í þeirri stöðu að ég hef komið auga á þetta vandamál sem truflar allt annað í hagkerfinu. Ég er búinn að vera að stofna og reka fyrirtæki í mörg ár og var algjörlega grunlaus um að eitthvað væri í ólagi. En svo er eins og teppinu sé kippt undan öllu samfélaginu með hruni bankakerfisins. Þá fór ég að hugsa hvort þetta þurfi ekki að vera í lagi áður en ég get verið rólegur með að stofna fleiri fyrirtæki. Þess vegna fór ég að skoða þessi mál.“

Hann segist ekki hafa átt von á því að finna neinar lausnir. „En þá rakst ég á þessar hugmyndir og komst fljótt að því að mjög fáir könnuðust við þær á Íslandi. Margir afgreiddu þær sem bull til að byrja með. Og reyndar gerði ég það sjálfur fyrst. Eftir því sem ég kynnti mér þær betur þá gat ég hins vegar ekki komið auga á nein mótrök gegn þeim. Þeir fjölmörgu hagfræðingar sem ég hef rætt við hafa heldur ekki getað gert það. Núna birtist síðan skýrsla frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem endurskoðar þessar hugmyndir bandarísku hagfræðinganna, og kemst að þeirri niðurstöðu að það sé engin villa í þeim. Við hljótum því í kjölfarið að spyrja okkur; við eigum að gera það við slíkar aðstæður. Við erum með peningakerfi sem er fullt af kerfisgöllum en hér stendur okkur til boða, að því er virðist, lausn sem er laus við þessa sömu galla.“

Það er á Frosta að heyra að hann ætli ekki að unna sér hvíldar fyrr en hugmyndir hans um endurbætur á peningakerfinu verða að veruleika. „Ég get ekki stoppað mig af í þessu,“ segir Frosti. „Þegar maður sér að eitthvað er í miklu ólagi þá getur maður ekki bara þagað yfir því. Þú verður að láta alla vita. Og það var einmitt það sem gerðist ekki í aðdraganda bankahrunsins. Margir sáu hvað var að gerast en sögðu ekkert. Ef við leikum þann leik aftur, og segjum ekkert, þá er hætt við því að við munum fá aftur slíkt fjármálaáfall. Þess vegna verðum við að læra af því sem fór úrskeiðis.“