Spara mætti 100 milljarða með því að hraða rafbílavæðingu

chevrolet_volt_210Árlega er flutt inn eldsneyti fyrir 10 milljarða til að knýja einkabíla landsmanna. Nú eru loksins að koma rafmagnsbílar á markað sem komast meira en 150 km á einni hleðslu og útskipting bílaflotans getur hafist.

Það eru 200 þúsund einkabílar í landinu og það gæti tekið allt að 30 ár að skipta þeim flota út fyrir rafbíla. Þá er miðað við að 30% af nýjum innfluttum bílum séu rafbílar.

Á þessum 30 árum munum við samt flytja inn eldsneyti fyrir 150 milljarða þar sem aðeins helmingur bílaflotans verður rafknúinn að meðaltali á tímabilinu. Það væri því til mikils að vinna fyrir þjóðina ef hægt væri að flýta útskiptingunni með einhverjum hætti.

Til að byrja með mætti hækka aðflutningsgjöld á bíla sem ekki eru rafknúnir en lágmarka hinsvegar aðflutningsgjöld á rafbíla. Rafbílar yrðu þá ódýrari en sambærilegir bílar, bæði í innkaupum og rekstri.

Setja mætti í lög að opinberar stofnanir keyptu aðeins rafbíla. Nýjir leigubílar skuli vera rafknúnir.

Selja þyrfti um 100 þúsund notaða bíla úr landi til að búa til rými fyrir rafbíla og afla gjaldeyris. Liðka þarf fyrir þeim útflutningi eins og kostur er t.d. með endurgreiðslu á innflutningsgjöldum.

Hugsanlega mætti ná magnsamningum við einhverja bílaframleiðendur, lækka innkaupsverð og fá aðstoð við að losna við notaða bíla úr landi.

Fáar þjóðir hafa jafn mikinn ávinning af rafbílavæðingu og Ísland. Við eigum nóg af hreinni og ódýrri raforku og dreifikerfið ræður auðveldlega við að hlaða allan rafbílaflotann á nóttinni.

Allir helstu bílaframleiðendur heims undirbúa nú markaðssetningu á rafbílum. Öld rafbílsins er loksins runnin upp þótt hún hefði mátt gera það 100 árum fyrr.

Það er gríðarlega hagkvæm fjárfesting að flýta rafbílavæðingunni eins og hægt er, svo ekki sé minnst á þá lífsgæðaaukningu sem hlýst af minni mengun.

Setjum okkur það markmið að 90% bílaflotans verði rafknúinn innan 10 ára.

Ef þetta markmið næst getur þjóðin reiknað sér sparnað upp á 100 milljarða í eldneytiskaupum á næstu 30 árum.