Ríkisábyrgð á innstæðum banka er óumflýjanleg

Hrun bankana hefur bætt skilning almennings á því hve bankar eru frábrugðnir öðrum fyrirtækjum. Komið hefur í ljós að þeir geta fjármagnað fjárfestingar sínar og útlán með innstæðum sem njóta óhjákvæmilega ríkisábyrgðar. Eigendur bankainnstæðna vita að ríkissjóður mun ávallt koma til bjargar ef banki getur ekki staðið í skilum og geta því sætt sig við lægri vexti á innstæður sínar. Bankar hafa því beinan hag af ríkisábyrgðinni en greiða þó ekkert fyrir hana. 

Í lögum um ríkisábyrgðir, segir að ríkissjóður megi aðeins veita ábyrgð með samþykki Alþingis. Yfirlýsing ríkisstjórnar Geirs H. Harde um að innstæður í íslenskum bönkum og sparisjóðum væru tryggðar að fullu var ekki lögð fyrir Alþingi til staðfestingar og bankar hafa ekki greitt ríkisábyrgðargjald fyrir að njóta þessarar ívilnunar. Ýmsir þingmenn hafa dregið í efa að yfirlýsingin geti haft gildi.

Í þingræðu miðvikudaginn 5. mars sl, um innstæðutryggingar, vakti ég athygli á því að innstæður í bönkum nytu óhjákvæmilega ríkisábyrgðar og því ættu bankar að greiða ríkisábyrgðargjald.

Í 6. gr. laga um ríkisábyrgðir segir:

Bankar, lánasjóðir, lánastofnanir, fyrirtæki og aðrir þeir aðilar sem lögum samkvæmt njóta, eða hafa notið, ábyrgðar ríkissjóðs, hvort sem hún er tilkomin vegna eignaraðildar ríkissjóðs eða annars, skulu greiða ábyrgðargjald af þeim skuldbindingum sínum sem ríkisábyrgð er á.

Svo virðist sem túlka megi þessa grein þannig að allir bankar með eignaraðild ríkissjóðs njóta ríkisábyrgðar skuli greiða ábyrgðargjald. Í sömu grein segir jafnframt að:

Ábyrgðargjald skal svara að fullu til þeirrar ívilnunar sem viðkomandi aðili nýtur, á grunni ríkisábyrgðar, í formi hagstæðari lánskjara umfram þau kjör sem almennt bjóðast á markaði án ríkisábyrgðar. Ábyrgðargjald samkvæmt málsgrein þessari skal ákveðið á grundvelli mats óháðs aðila á lánskjörum með og án ríkisábyrgðar og skal gjaldið reiknað af höfuðstól gjaldskyldra skuldbindinga eins og hann er að meðaltali á hverju gjaldtímabili, sbr. 8. gr.]1)“

Það ætti að vera hafið yfir vafa að bankar njóta ívilnunar vegna „óhjákvæmilegrar“ ríkisábyrgðar á innstæður og ríkið á að innheimta gjald sem svarar að fullu til þeirrar ívilnunar.

Í stað þess að stinga höfðinu í sandinn og láta sem ekki sé ríkisábyrgð á innstæðum í innlendum bönkum tel ég að Alþingi ætti að setja lög um ábyrgðina og innheimta gjald fyrir hana.

Færa mætti rök fyrir því að ríkisábyrgð skipti mestu máli um lausar innstæður, en þær nema nú u.þ.b. 500 milljörðum. Ef við gefum okkur sem dæmi að hin óumflýjanlega ríkisábyrgð hafi lækkað vaxtakröfu innstæðueigenda um 2% þá eru þetta 10 milljarðar á ári sem ættu að renna til ríkisins.

Hvers vegna ríkisábyrgð á innstæðum er óumflýjanleg

Samfélagið er háð því að almenningur og fyrirtæki hafi aðgang að peningum. Aðeins 9% af peningum í landinu er á formi seðla og myntar, afgangurinn er í formi innstæðna sem eru loforð banka um að afhenda seðla sé þess óskað.

Það er augljóst að bankar geta ekki staðið í skilum ef of margir vilja taka út seðla samtímis. Þetta er brothætt kerfi. Vakni grunsemdir um að banki geti ekki staðið í skilum hlaupa allir til og vilja taka út innstæður sínar, því það er ekki nóg laust fé handa öllum. Við slíkt áhlaup er bankinn kominn í verulegan vanda nema ríkissjóður stöðvi áhlaupið með því að lýsa yfir ríkisábyrgð á innstæðum.

Ef á reynir mun ríkissjóður alltaf kjósa að gefa út slíka yfirlýsingu, því hinn kosturinn er miklu verri fyrir samfélagið. Ef stór innlánsstofnun verður ógreiðslufær þá gæti stór hluti fyrirtækja og landsmanna ekki nálgast peninga sína (lausar innstæður) og þar með ekki átt viðskipti eða keypt brýnustu nauðsynjar. Hagkerfi okkar er því gjörsamlega háð því að innlánsstofnanir séu gjaldfærar, því annars hættir stór hluti peningamagnsins í landinu að virka. Á meðan innlánsstofnunum er falið að búa til peningana sem hagkerfið reiðir sig algerlega á mega þær aldrei verða gjaldþrota.

Það er því ljóst að svo lengi sem bönkum er heimilt að búa til peninga í formi innlána munu innlán þeirra óhjákvæmilega njóta ríkisábyrgðar. Æskilegt er að horfast í augu við þann veruleika og innheimta eðlilegt gjald fyrir ábyrgðina.