Ísland taki afstöðu gegn viðskiptaþvingunum

Ísland er eitt af þeim ríkjum sem eiga sérstaklega mikilla hagsmuna að gæta af því að milliríkjaviðskipti séu án allra þvingana. Ríflega 53% af þjóðarframleiðslu Íslands er í formi útflutningstekna. Þetta er mjög hátt hlutfall í alþjóðlegum samanburði. Í Bandaríkjunum eru útflutningstekjur aðeins 12% af þjóðarframleiðslu og líklega er hlutfall útflutnings hjá Evrópusambandinu litlu hærra. Bandaríkin og ESB fórna því hlutfallslega margfalt minni hagsmunum en Ísland með því að taka þátt í efnahagsþvingunum.

Þegar stjórnvöld brjóta mannréttindi eða jafnvel alþjóðalög eru fyrstu viðbrögð alþjóðasamfélagsins yfirleitt þau að semja harðorðar ályktanir. Dugi ekki að álykta er í einstaka tilfellum gripið til viðskiptaþvingana til að auka þrýstinginn. Með viðskiptaþvingunum er þess freistað að fá brotleg stjórnvöld til að breyta hegðun sinni til betri vegar. Því miður skila efnahagsþvinganir mjög sjaldan tilætluðum árangri  en þær valda iðulega búsifjum hjá almennum borgurum og gera þannig aðstöðu þeirra sem átti að hjálpa verri en hún var.

Afleiðingar af viðskiptaþvingunum geta í sumum tilfellum haft áhrif á íslensk fyrirtæki eða byggðalög sem reiða sig á útflutning til viðkomandi ríkis. Þegar tjón leiðir af utanríkisstefnu hlýtur að vera eðlileg krafa að stjórnvöld bæti viðkomandi tjónið. Það er erfitt að réttlæta að tjón af utanríkisstefnu íslenskra stjórnvalda leggist tilviljanakennt og bótalaust á einstök fyrirtæki eða sveitarfélög sem hafa viðurværi sitt af utanríkisviðskiptum.

Mannréttindabrotum þarf að sjálfsögðu ávallt að mótmæla harðlega, en það bætir ekki heiminn að leggja út í viðskiptaþvinganir sem skaða fyrst og fremst innlend fyrirtæki og almenna borgara í viðkomandi ríki.

Í dag er Ísland þátttakandi í viðskiptaþvingunum gegn fjölmörgum ríkjum. Á vegum Sameinuðu Þjóðanna tekur Ísland þátt í aðgerðum gegn fimmtán ríkjum. Þessu til viðbótar er Ísland þátttakandi í viðskiptaþvingunum Evrópusambandsins gegn Hvíta Rússlandi, Bosníu Herzegoviníu, Egyptalandi, Gíneu, Moldóvu, Myanmar, Sýrlandi, Túnis,  Úkraínu, Rússlandi, Krím og Zimbabwe. Íslandi ber engin skylda til að taka þátt í þessum aðgerðum ESB því Ísland er ekki aðili að ESB og utanríkismál eru ekki hluti af EES samningnum.

Íslandi er frjálst til að móta sér þá almennu stefnu að taka ekki þátt í þvingunaraðgerðum gegn öðrum ríkjum. Undatekning frá þeirri reglu væru aðgerðir sem ákveðnar eru á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna eða NATO. Um leið væri rétt að falla frá þátttöku Íslands í öllum þvingunaraðgerðum sem eru hluti af utanríkisstefnu ESB.