Heilbrigðiskerfið njóti forgangs

robotFlestir eru á þeirri skoðun að björgun mannslífa eigi að vera forgangsmál og að veikum og slösuðum verði ávallt veitt besta læknisaðstoð og lyf sem völ er á. Standa beri vörð um heilbrigðiskerfið og tryggja því forgang umfram flest önnur verkefni ríkisins.

Því miður hefur þetta ekki verið raunin undanfarin ár. Niðurskurður í rekstri heilbrigðiskerfisins hefur gengið svo langt að hættuástand hefur skapast.

Forgansröðunin hefur verið kolröng. Var skynsamlegt að setja 10 milljarða í jarðgöng sem stytta þjóðveginn um 9 mínútur, á sama tíma og ekki er til fjármagn til að viðhalda núverandi húsnæði Landspítalans eða endurnýja nauðsynlegustu tæki?

Menning er vissulega mikilvæg, en hvort var brýnna að setja 800 milljónir í safn íslenskra fræða eða kaupa PET skanna sem bjargað getur fjölda mannslífa? Náttúruminjasafn fékk 500 milljónir, en fyrir þá upphæð hefði mátt kaupa skurðróbót fyrir nútíma krabbameinsaðgerðir. Án þessa tæknibúnaðar er íslenska heilbrigðiskerfið orðið langt á eftir þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Vegna niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu eru nýjustu og bestu lyfin ekki lengur í boði hér á landi. Sagt er að Ísland sé þegar orðið 5-10 árum á eftir á þessu sviði. Nýlega voru fluttar fréttir af því að bræður sem hafa greinst með illvígan erfðasjúkdóm þurfi að bíða í fimm mánuði áður en þeir fá nauðsynleg lyf. Helstu einkenni Fabry sjúkdómsins sem þeir búa við eru skemmdir á líffærum og taugaverkjaköst. Er þetta ásættanlegt?

Það kostar ríkið vart minna en 20 milljónir að mennta hvern lækni. Ef læknir hverfur til starfa erlendis þá nýtist sú fjárfesting ekki Íslandi. Það þarf að snúa við landflótta í læknastétt. Það mun ekki takast nema stjórnvöld setji heilbrigðismál í forgang. Það verður ekki nóg að bæta kjörin, það þarf líka að bæta tækjabúnað svo læknar geti beitt hér þeirri tækni sem þeir hafa lært að nota erlendis.

Það þarf að hefja uppbyggingu heilbrigðiskerfisins af fullum krafti. Til þess mun þurfa að bæta kjör heilbrigðisstétta, útvega bestu lyf sem völ er á, og fjárfesta í nauðsynlegum tæknibúnaði.

Um leið og hagur ríkisins leyfir þarf að hefja stækkun Landspítalans. Vegna hrunsins má vera að sú stækkun þurfi að fara fram í smærri og fleiri skrefum en menn hefðu viljað. En verði dregið of lengi að hefja stækkun mun heilbrigðiskerfið vart geta tekið á móti því aukna álagi sem fylgir vaxandi fjölda aldraðra og langveikra Íslendinga.

Öflugt atvinnulíf og hagvöxtur eru forsendur þess að við getum boðið þeim sem eiga við veikindi að stríða bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á. Góðu fréttirnar eru að hér eru gríðarleg tækifæri á ótal sviðum. Við erum staurblönk í bili, en með dugnaði og útsjónarsemi mun hagur landsins vænkast hratt. Í millitíðinni þurfum við að standa vörð um heilbrigðiskerfið.