Eru sólböð núna orðin holl?

Það virðist útbreidd skoðun að sólböð séu ekki sérlega nauðsynleg heilsunni og flestir virðast telja óráðlegt að fara í sólbað þegar sól er hæst á lofti. Rannsóknir benda hins vegar til þess að sólböð séu ekki bara holl heldur veiti þau vörn gegn mörgum lífshættulegum sjúkdómum. Þeir sem fái næga sól séu þannig allt að helmingi ólíklegri en aðrir til að fá brjóstakrabbamein, ristilkrabbamein, blöðruhálskrabba, eitilfrumukrabba og krabbamein í þvagblöðru.

Sólböð virðast einnig draga úr líkum á hjartasjúkdómum, sykursýki, alzheimer, MS, liðagigt, tannskemmdum hjá börnum, offitu og nærsýni auk þess sem sólböðin geta mildað þunglyndi, geðklofa, mígreni og vetrardrunga. Lengi hefur verið þekkt að sólböð geta dregið úr einkennum psoriasis og árið 1903 fékk Niels Finsen, læknir af íslenskum uppruna, nóbelsverðlaun í læknisfræði fyrir að uppgötva læknandi áhrif sólarljóss á berkla og fleiri skjúkdóma.

Þrátt fyrir þessi miklu fyrirbyggjandi áhrif sólbaða gegn lífshættulegum krabbameinum og fleiri sjúkdómum eru heilbrigðisyfirvöld ekki sérlega dugleg við að upplýsa almenning um mikilvægi sólbaða.

Þar til heilbrigðisyfirvöld gefa út ráðleggingar um hvernig best sé að stunda sólböð til að draga úr líkum á krabbameinum og fleiri hættulegum sjúkdómum eru hér nokkur atriði sem gott er að hafa til hliðsjónar:

  1. Farðu í sólbað þegar sólin er hátt á lofti, því aðeins þá kemst allt það tíðniróf sem húðin þarfnast í gegnum lofthjúpinn. Gættu þess samt að vera aðeins stutta stund í sólbaði til að forðast bruna. Flestum duga 7 til 20 mínútur til að ná fullum ávinningi.
  2. Því stærra svæði af húðinni sem sólin nær að skína á því betra.
  3. Ekki nota sólvörn fyrr en eftir að 7 til 20 mínútur eru liðnar.
  4. Gefðu húðinni góðan tíma til að jafna sig eftir sólbaðið. Best að láta heilan dag líða á milli sólbaða. Það er alveg nóg að fara í sólbað þrisvar í viku til að ná fullum ávinningi.
  5. Óþarflega tíð og löng sólböð geta valdið sólbruna, flýtt öldrun húðarinnar og aukið líkur á húðkrabbameinum. Það ber því ávallt að stunda sólböð af skynsemi og hafa í huga að 20 mínútur á dag duga flestum til þess að fullnýta hin jákvæðu áhrif sólarinnar. Eftir því sem sólbað lengist umfram þennan tíma eykst hættan á neikvæðum afleiðingum.
  6. Húðin notar útfjólublátt ljós af bylgjulengdinni 310 nm til að framleiða D vítamín. Þessi bylgjulengd sólarljóssins nær vart til jarðar hér á landi nema sólin sé frekar hátt á lofti og aðeins yfir sumarmánuðina (maí til september).

En auka sólböð ekki líkur á húðkrabbameini?
Tíðni húðkrabbameins hefur aukist undanfarna áratugi hjá norrænu fólki og er talið að aukningin sé afleiðing af aukinni inniveru, tíðari ferðalögum til landa þar sem geislun sólar er mun sterkari en á norðurlöndunum auk þess sem fleiri mein uppgötvast með bættu eftirliti.

Rannsóknir sýna að þeir sem vinna utandyra og fá sól að staðaldri eru ólíklegri enn innivinnandi til að fá húðkrabba. Útivinnandi eru einnig líklegri til að ná fullum bata af húðkrabbameini en þeir sem vinna innandyra.

Það má því vera að regluleg hófleg sólböð geti jafnvel haft forvarnargildi gegn húðkrabbameini en hættan er hinsvegar talin meiri hjá þeim sem eru með mjög ljósa húð, eru óvanir sól og fara í löng og mikil sólböð í suðlægum löndum.

Er ávinningur meiri en áhætta?
Rannsókn sem unnin var af krabbameinslæknum við sjúkrahúsið í Osló og studd af norsku krabbameinsamtökunum, lagði mat á áhættu og ávinning af sólböðum. Niðurstaðan var sú að þrátt fyrir að sólböð gætu aukið hættu á húðkrabbameini væri áhættan mjög lítil í samanburði við þann mikla ávinning sem fengist með því að draga verulega úr líkum á algengum krabbameinum.

Sólböð eru hollari en D-vítamín
Sólböð hafa varnaráhrif gegn öllum ofantengdum sjúkdómum en D vítamín í fæðu virðist aðeins hafa varnaráhrif gegn sumum þeirra. Sólböð draga t.d. úr líkum á blöðruháls-krabbameini en D vítamín virðist ekki hafa slík áhrif. Ekki er enn ljóst hvað veldur þessum mun en ýmsar kenningar hafa verið reifaðar. Hugsanlegt er að húðin framleiði fleiri mikilvæg efni en D-vítamín þegar hún nýtur sólarljóss en þetta hefur ekki enn verið nægilega rannsakað.

Heimildir:
https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3897598/
https://www.cambridge.org/core/journals/public-health-nutrition/article/vitamin-d-sun-sunbeds-and-health/7C6BE4A867B208F9DE1B68B454CF4342/core-reader#
https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC5129901/