Erindi til Innanríkisráðuneytis vegna kynningarátaks ESB á Íslandi

innanrikisraduneytidEftirfarandi erindi var sent Innanríkisráðuneytinu 4. mars sl. Ráðuneytið hefur staðfest viðtöku og ráðherrann sagt í fjölmiðlum að erindið sé komið í vinnslu.

Hr. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra

Sölvhólsgötu 7

150 Reykjavík

Erindi: Er kynningarstarf Evrópusambandsins á Íslandi lögbrot?

Evrópusambandið fjármagnar Evrópustofu sem tók til starfa 21. janúar á þessu ári og hefur það markmið að “stuðla að aukinni umræðu, þekkingu og skilningi á eðli og starfsemi ESB.” Evrópusambandið leggur Evrópustofu til 1,4 milljónir evra á tveim árum. Evrópustofa gefur út kynningarefni í bæklingum og öðru formi til dreifingar. Evrópustofa hefur staðið að fjölda kynningarfunda víða um landið. Meðal framsögumanna er sendiherra ESB, (t.d. á opnun fundi um ESB á Akureyri 29. febrúar sl.)

Ofangreindar upplýsingar má finna á vefsíðu Evrópustofu: www.evropustofa.is

Spurt er hvort fyrirlestrar og fundir sendiherra ESB víða um land stangist á við eftirfarandi lög:

Úr 1. tl. 41. gr laga nr. 16/1971 Lög um aðild Íslands að alþjóðasamningi um stjórnmálasamband: “Það er skylda allra þeirra, sem njóta forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi. Á þeim hvílir einnig sú skylda að skipta sér ekki af innanlandsmálum þess ríkis.”

Spurt er hvort útgáfustarf Evrópustofu, sem fjármögnuð er af erlendu ríkisvaldi, varði við eftirfarandi grein:

Úr 1. gr. laga nr. 62/1978 Lög um bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka og blaðaútgáfu erlendra sendiráða á Íslandi: “Þá er erlendum sendiráðum á Íslandi óheimilt að kosta eða styrkja blaðaútgáfu í landinu.”

Spurt er hvort Evrópustofa geti í nokkru tilliti talist hlutlaus aðili þegar kemur að kynningu á Evrópusambandinu. Má meta til fjár kynningu Evrópustofu á kostum aðildar, en það er eitt helsta baráttumáli Samfylkingar. Fellur kynningarstarf Evrópustofu ekki undir skilgreiningu eftirfarandi laga um framlög og þar með brot á eftirfarandi lögum:

Úr 6. gr laga nr. 162/2006 Lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra: “Óheimilt er [stjórnmálasamtökum] að veita viðtöku framlögum frá erlendum ríkisborgurum, fyrirtækjum eða öðrum aðilum sem skráðir eru í öðrum löndum.”

Að lokum er þeirri spurningu beint til Innanríkisráðuneytisins hvort starfsemi Evrópustofu eða sendiráðs ESB kunni að stangast á við einhver önnur lagaákvæði en hér voru talin upp.

Stjórnvöld stefna að því að ljúka aðildarsamningi við ESB og leggja hann fyrir þjóðaratkvæði. Lýðræðisleg umræða um kosti og galla aðildar er í gangi meðal kjósenda. Slík umræða þarf að geta átt sér stað á grundvelli jafnréttis og án inngripa erlendra hagsmunaaðila.

Það er ljóst að óheft inngrip fjársterkra hagsmunaaðila skekkja sjálfan jafnréttisgrundvöll hins beina lýðræðis. Ef gildandi lög í landinu girða ekki nú þegar fyrir slík inngrip þarf að bregðast tafarlaust við, vegna þess að erlent stjórnvald með ótakmörkuð fjárráð og beina hagsmuni hefur nú þegar hafið mikið og skipulagt átak til að móta afstöðu íslenskra kjósenda sér í hag.

Virðingarfyllst,

Frosti Sigurjónsson