Eins og staðan er núna þurfum við nýja hugsun, út fyrir rammann.

Flugmiðar, makríll og pólitík

Frosti Sigurjónsson hefur vakið athygli fyrir fjölbreytta hluti undanfarin ár, allt frá stofnun flugmiðavefsins Dohop til sölu og kynningar á makríl. Á sama tíma hefur hann haft virk afskipti af samfélagsmálum, fyrst í baráttu gegn IceSave og nú síðast með því að bjóða sig fram fyrir Framsóknarflokkinn í Alþingiskosningum árið 2013.


Frumkvöðlar laga og stilla

„Ég er þannig gerður að ef ég heyri falskan tón reyni ég sjálfkrafa að stilla hann – ég einfaldlega verð að stíga fram til að gera eitthvað í málunum. Allar mínar hugmyndir hafa orðið þannig til, líka Dohop, þar sem ég rak mig á að í flóknu umhverfi flugfargjalda vantaði einfaldleika og víðtæka þjónustu. Þess vegna fór ég af stað – til að laga þá skekkju.“

Frosti gerir engan greinarmun á frumkvöðli og listamanni; að listamaðurinnn sjái tóm og reyni að útrýma því, fylla upp í grámann og leiðindin með fegurð eða spennu eða nýjum hugmyndum og að frumkvöðullinn geri nákvæmlega það sama:

„Frumkvöðull getur ekki setið kyrr og horft á skekkju eða óuppfyllta þörf í kringum sig. Hann verður viðþolslaus þar til málið er leyst.
Og reynsla mín er sú að hvatinn sé sjaldnast fjárhagslegur, þótt umræðan sé oft á annan veg. Frumkvöðlar eru fæstir drifnir áfram af peningum. Þeir vilja fyrst og fremst koma hlutunum á hreyfingu; þeir vilja breyta og bæta.“

Alls ekki besti stjórnandinn

Frosti talar af mikilli ákefð um eðli frumkvöðuls og nýsköpunar, en leggur þó áherslu á að þetta sé enginn stórisannleikur heldur aðeins hans eigin skynjun á þessi víðtæku hugtök:

Frosti Sigurjónsson
„Við eigum einfaldlega kjöraðstæður til að fóstra smá og meðalstór sprotafyrirtæki“
„Mér finnst rekstur í sjálfu sér skemmtilegur, en ég er langt í frá besti stjórnandi sem ég þekki. Og þegar fyrirtækin mín eru komin á ákveðið flug og farin að skila hagnaði fer ég nánast að þvælast fyrir, ég fæ bara endalausar hugmyndir sem geta truflað fyrirtæki sem er í jöfnum og arðbærum rekstri. Ég þarf alltaf að finna mér nýtt vandamál til að leysa, sem er einmitt það sem hefur dregið mig út í samfélagslega nýsköpun. Undanfarin tvö ár hef ég sökkt mér ofan í miklar pælingar um peningakerfi heimsins og hversu meingallað það er. Ég hef einfaldlega endurmenntað sjálfan mig, horft á þetta risastóra heimsvandamál með hugarfari frumkvöðulsins og til dæmis komist að því að stóra lausnin felist í því að hætta með brotaforðakerfi og taka frekar upp heildarforðakerfi. Þess vegna setti ég á laggirnar kynningarsíðuna betrapeningakerfi.is.“

Í spjallinu kemur þó skýrt fram að auðvitað eigi ekki allir að vera frumkvöðlar, því þá yrði lítið úr verki í samfélaginu. Góðir rekstraraðilar séu nauðsynlegir því þeir kunni að slípa og fága; fá það besta út úr hugmyndunum og byggja upp skipulagsheildir.„Að mínu mati ætti maður eins og ég alls ekkert erindi á þing ef allt væri í himnalagi. Í slíkum aðstæðum er best að þeir sjái um að reka samfélagið sem eru einmitt góðir í því – í rekstri og skipulagi. En eins og staðan er núna þurfum við nýja hugsun, út fyrir rammann, í bland við sterka rekstraraðila.“

Hvernig verðum við best í því að vera 300 þúsund manna þjóð?

Þegar talið berst að mögulegri þingmennsku Frosta kemur fram sú skoðun hans að einmitt núna eigi einstaklingar með hugsun frumkvöðulsins fullt erindi á þing, því að Ísland eigi að þora að endurskilgreina hvernig samfélög eru byggð upp; að íslenska þjóðin eigi að nýta sér smæð sína og hraða og taka sér forystuhlutverk í samfélagsþróun heimsins.„Hluti af vandanum okkar hér á Íslandi er að við höfum erft samfélagskerfi frá milljónaþjóðum. Og í mörgum tilfellum virka þau kerfi einfaldlega ekki því þau eru sniðin að þeirra þörfum. Tökum hlutabréfamarkaðinn sem dæmi, en regluverk hans miðast við milljónaþjóðir. Hann er því mjög lokaður og mörgum skilyrðum háður, svo lokaður að stærstur hluti smárra og meðalstórra fyrirtækja kemst ekki inn á hann. Þetta takmarkar möguleika þeirra á að ná sér í nýtt fjármagn og í leiðinni möguleika venjulegra Íslendinga á að fjárfesta í þessum fyrirtækjum. Það væri öllum til góða ef þetta flæði væri opnara. Þetta er aðeins eitt dæmi af fjölmörgum sem sýna að við eigum ekki að erfa risastór föt frá stórveldunum í kringum okkur, heldur skapa okkar eigin kerfi sem eru sniðin að því að við erum aðeins 300 þúsund talsins. Með því að sníða okkur stakk eftir vexti getum við orðið best í heimi – best í því að vera 300 þúsund manna þjóð.

Ég líki þessu stundum við sportbíl sem hangir fyrir aftan stóran flutningabíl, kemst ekki leiðar sinnar og nýtir ekki kraft sinn. Ríkin í kringum okkur eru stór og það er gott og blessað, en þess vegna eru þau líka þunglamaleg og breytingar og tilraunir taka langan tíma.

Ef við leyfum okkur að taka fram úr þeim – á okkar eigin forsendum – getum við leitt heiminn inn á nýjar brautir með því að sýna fram á hvað virkar og hvað virkar ekki. Þetta er vel hægt að gera án þess að fara fram úr sjálfum sér, ef við bara höldum áfram að keyra
varlega.“

Ísland = Sprotaland = gróðurhús hugmynda

Í spjallinu kemur fram sú eindregna skoðun Frosta að Ísland, ekki síst Reykjavík, búi yfir öllu því sem vel heppnuð „start-up“ miðstöð þarf upp á að bjóða. Í Frakklandi hafi t.d. verið reynt að koma slíkri miðstöð á koppinn með verkefninu Sophia Antipolis, en það hafi orðið mjög takmarkað og líflaust, m.a. vegna ytri aðstæðna sem séu mun hagstæðari í Reykjavík:

„Hvað er það sem við eigum hér á Íslandi? Mikinn hraða og – enn sem komið er – einfalt regluverk þegar kemur að því að stofna fyrirtæki. Við eigum einfalt og sterkt samfélag í Reykjavík, barmafullt af menningu og listum sem örva alla starfsemi fyrirtækja með óbeinum hætti. Gleymum því ekki að Reykjavík er höfuðborg, jafnvel þótt hún sé höfuðborg smárrar þjóðar. Og Reykjavík er mjög lifandi.

Hér eru litlar fjarlægðir sem sparar mikinn tíma í fundarhöldum og rekstri. Við eigum einfaldlega kjöraðstæður til að fóstra smá og meðalstór sprotafyrirtæki og þau eiga að koma hingað í stórum stíl og hugsa: Við ætlum að koma til Íslands til að „starta okkur upp“.

Við eigum að velja og hafna og skilgreina hvað við ætlum að gera og ekki gera. Mesti vaxtargróðinn er á upphafsstigum fyrirtækja, þegar þau stækka upp í að þjóna mörkuðum sem telja 300 þúsund og upp í milljón einstaklinga. Eftir það eru fyrirtæki orðin alltof stór fyrir Ísland og geta valdið vandræðum.

Þetta er alls ekki séríslenskt – t.d. er Nokia talið orðið of stórt fyrir Finnland, því að ef þeim gengur illa myndast sjálfkrafa kreppa í öllu landinu. Þegar fyrirtæki verða mjög stór í litlu landi geta völd þeirra orðið meiri en hollt er. Þá er kannski betra að þau færi sig úr landi
og við ættum ekki að harma það. Við gætum áfram átt hlut í þeim og notið arðs og tengsla og þekkingin myndi nýtast til að hleypa nýjum fyrirtækjum af stokkunum.

Markmiðið ætti ekki að vera að gera allt til að halda stórum fyrirtækjum í landinu, miklu frekar að fóstra vaxandi fyrirtæki, smá og meðalstór. Við eigum allt í þennan „start-up“ kúltúr og þurfum einfaldlega að ná utan um það hvernig hann getur orðið enn betri.“

„Umboðsmaður íslenska makrílsins“

Sú saga hefur flogið fjöllum hærra að Frosti hafi gerst stórtækur í makrílsölu hér á landi:

„… þetta var skólabókardæmi um það hvernig þörf, skekkja og persónulegur áhugi getur drifið mann áfram í frumkvöðlastarfi.“
„Þetta er ansi lífseig saga sem hefur fengið að ýkjast svolítið í almannarómi, en auðvitað er hún sönn í grunninn.

„… þetta var skólabókardæmi um það hvernig þörf, skekkja og persónulegur áhugi getur drifið mann áfram í frumkvöðlastarfi.“

Ég fór einfaldlega að veiða makríl með stráknum mínum, því við erum mjög hrifnir af þeim fiski og ef hann er meðhöndlaður rétt er hann frábær á grillið – hann má t.a.m. ekki komast í tæri við mikið súrefni. En þetta er nýr fiskur á Íslandsmiðum og þegar hann fór að veiðast hér beið ég alltaf eftir því að hann kæmi í búðir. Það gerðist hins vegar ekki og ég var steinhissa.

Þegar strákurinn minn átti aur eftir að lokinni sumarvinnu stóð hann frammi fyrir því að leggja hann inn á banka, en ég stakk upp
á því að hann færi í smá bissness. Á endanum keyptum við saman eitt tonn af makríl, fundum samstarfsaðila í pökkun, geymslu og dreifingu, stofnuðum heimasíðu og fórum í kynningarstarf og markaðssetningu.

Stutta útgáfan er sú að tonnið kláraðist og við töpuðum ekki á ævintýrinu, en að því loknu vorum við báðir farnir að sýsla við eitthvað annað og höfðum ekki tíma til áframhalds. Samstarfsaðilinn tók því við keflinu, sprotinn lifir og dafnar vonandi og blómstrar í náinni framtíð.

En jú, það er satt að þetta var skólabókardæmi um það hvernig þörf, skekkja og persónulegur áhugi getur drifið mann áfram í frumkvöðlastarfi. Og þetta vakti nokkra athygli, bæði á makríl og á hugtakinu nýsköpun. Þannig starfa ég sjálfur, alltaf út frá áhuga og þeirri þörf sem ég kem auga á í nærumhverfinu.“

Mottó frumkvöðulsins – klassík eða klisja?

Frosti á þrjú börn en segist ekki ræða mikið við þau að fyrra bragði um það að vera frumkvöðull eða starfa í nýsköpun; þau eigi sín eigin áhugamál og hann sem foreldri vilji alls ekki reyna að móta þau eftir eigin höfði. En hvaða lífsviðhorf liggur undir störfum hans?

„Það er alltaf það sama: Að hjálpa og laga. Það er það sem ég vil gera. Framan af snerist lífið auðvitað um að hugsa þröngt, koma undir sig fótunum, tryggja þarfir fjölskyldunnar og skapa öryggi fyrir okkur öll, en nú er það komið og því vil ég leggja mitt af mörkum.

Þegar ég var að byrja leitaði ég ótrauður eftir aðstoð annarra frumkvöðla sem ég vissi að hefðu öðlast tiltekna reynslu. Ég hafði einfaldlega samband við þá og bað um ráð og fékk því að læra af óteljandi fólki. Allir vildu hjálpa – ég kom aldrei að lokuðum dyrunum. Og þetta vil ég ólmur gera núna, að hjálpa öðrum sem vilja stíga sín fyrstu skref, til að endurgjalda það sem ég fékk sjálfur að læra.

Ég vil líka leggja mitt af mörkum fyrir samfélagið í heild sinni – að breyta og laga það sem amar að, því við erum alls ekki búin að laga kerfisgallana sem komu í ljós í hruninu árið 2008.

Staðreyndin er sú að við erum ung þjóð – við erum rétt að byrja og eigum ekki langa hefð í viðskiptum. Þegar ég var í námi erlendis var ég að læra með fólki sem var fætt inn í fjölskyldur sem hafði stundað viðskipti í marga ættliði.

Eins og gefur að skilja hafði þetta fólk aðgang að mikilli uppsafnaðri reynslu og ákveðið forskot. Það er veruleiki sem við Íslendingar erum rétt að stíga inn í og við lærum hratt, ekki síst af mistökunum.

Ísland var áður á útjaðri heimsins en með netinu er okkur mögulegt að stunda alþjóðleg viðskipti, þróa og selja lausnir okkar um allan heim, en búa samt áfram á þessu fallega landi. Hvað vill maður biðja um meira?“