Einkaseðlabankinn 1889

Árið 1899 kom inn á Alþingi frumvarp um stofnun seðlabanka í eigu þeirra Arntzen og Warburg. Seðlabanki þeirra myndi hafa einkarétt til seðlaútgáfu á Íslandi í 90 ár.

Frumvarpinu var all vel tekið en það komst þó ekki í gegn í fyrstu atrennu vegna tímaleysis. Milli þinga var leitað álits Þjóðbankans sem lagði til verulegar breytingar, meðal annars að stytta gildistíma einkaleyfisins.

Halldór Jónsson bankaféhirðir var á meðal þeirra sem vöruðu við því að einkabanka í eigu útlendinga yrði gefið einkaleyfi til seðlaútgáfu í landinu. Hann taldi farsælla að stofna seðlabanka í eigu ríkisins sem hefði hag allra landsmanna að leiðarljósi. Halldór færði fyrir því mörg góð rök og meðal annars þessi:

“Önnur ástæða fyrir því, að vér eigum ekki að leggja niður Landsbankann, og gefa hlutafélagabankanum óskertan seðlaútgáfuréttinn í 30 ár er sú, að þjóðin öll á seðlaútgáfuréttinn og þann arð sem honum er samfara; hún á því sjálf að njóta þess arðs.

Það byggist á tiltrú þjóðarinnar sjálfrar, að hægt er að láta seðla, bankaseðla, peningaseðla, ganga sem gjaldmiðil í landinu, og auðmennirnir, sem ráða haf til að eignast hluti í seðlabankanum, eiga engan rétt á því, að stinga í sinn vasa arðinum af þessari tiltrú.

Peningar eru réttilega nefndir afl þeirra hluta sem gjöra skal, og fyrir því verður hið opinbera, að hafa gætur á því og kosta kapps um það, að peningarnir séu ekki einokaðir.”

Spurningin er sú hvað myndi Halldór segja við stöðunni í dag?

Árið 2012 er staðan sú að seðlabanki landsmanna skapar aðeins 5% af peningamagninu en eftirlætur einkabönkum að skapa þau 95% sem á vantar. Bönkum sem eru að mestu í erlendri eigu sem þýðir að allur arður af peningaútgáfu* rennur þjóðinni úr greipum.

Er ekki þjóðin komin einmitt í þann vanda sem Halldór Jónsson bankaféhirðir varaði svo sterklega við árið 1899?

Heimild: Sérprentun úr Andvara XXVII

* Peningaútgáfa í dag er að mestu rafræn og í höndum einkabanka. Seðlabankinn sér aðeins um útgáfu seðla og myntar. Sjá: www.betrapeningakerfi.is