Eftir Icesave er komið að heimilunum

Frosti ræddi við Morgunblaðið í fögnuði á Hótel Marina við Reykjavíkurhöfn í gærkvöldi. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
Eftir Baldur Arnarson baldura@mbl.is

„Nei. Þetta mál er ekki dautt,“ segir Frosti Sigurjónsson, frambjóðandi Framsóknarflokksins í komandi alþingiskosingum og einn stofnenda Advice-hópsins, um baráttu fyrir aðgerðum í þágu skuldugra heimila. Eftir sigurinn í Icesave sé komið að heimilunum.

Frosti segir ríkisstjórnina hafa unnið gegn Advice-hópnum og notið til þess liðsinnis fjársterkra aðila sem vildu fallast á Icesave-samninginn sem var felldur í síðari þjóðaratkvæðagreiðslunni, 6. mars 2011.

Hann var sigurreifur í fögnuði á Slippbarnum í gærkvöldi.

„Hér ríkir gleði og ánægja yfir þessu. Nú á þjóðin að gera sér glaðan dag, finnst mér. Mér reiknast til að þetta hafi sparað hverju heimili 800.000 krónur með því að síðasti samningur var felldur. Þetta eru um 80 milljarðar sem hann hefði kostað með tíð og tíma. Áfallin krafa var 46 milljarðar og svo áttu eftir að falla meiri vextir.

Það var búið að meta að þetta yrðu um 80 milljarðar í erlendum gjaldmiðli sem má deila með 100.000 heimilum, og þá koma út 800.000 krónur á heimili. Allir ættu að kætast yfir því. Vonandi verður þetta byrjun á einhverju góðu. Það kemur í ljós að Ísland er í rétti og hefur ekki brotið neina alþjóðlega samninga. Þetta er á forsíðum heimsblaðanna og það skiptir mjög miklu máli.“

 Ákváðu að hefja undirskriftasöfnun

– Segðu mér aðeins frá stofnun Advice. Hvert var tilefnið?

„Upphafið má rekja til þess að við reyndum að fá Indefence-teymið í gang eftir að það hafði unnið gríðarlega mikilvæga baráttu í Icesave II. Mér gekk illa að fá þá af stað. Þeir sögðu „Byrja þú bara” og við sjáum til. Þeir voru eðlilega þá þegar búnir að gera svo mikið í málinu. Þeir fóru ekki af stað og þá ákváðum við að hefja undirskriftasöfnunina á öðrum vettvangi og þar var Samstaða þjóðar í forgöngu í gegnum vefinn kjósum.is.

Síðan þegar kom að því að kynna rökin að þá var Advice stofnað til að halda utan um allan þann pakka og safna peningum til þess að geta auglýst sjónarmiðin. Það er það sem Advice-hópurinn gerði og mætti reglulega og vann mjög mikið í þessu. Þegar Advice-hópurinn var kominn í gang lögðust allir á árar með okkur. Það er mikilvægt að taka það fram og stór hluti af Indefence-hópnum líka.“

– Hvað voru margir í hópnum?

„Hópurinn átti sér opinbera talsmenn en að baki voru miklu fleiri talsmenn.“

Þjóðin getur skorið úr um flókin álitamál 

– Því er haldið fram að þetta sé sigur beins lýðræðis og marki því tímamót í lýðræðissögunni. Ertu sammála?

„Já, mér finnst það renna stoðum undir það að jafnvel í mjög flóknum álitamálum sé þjóðinni treystandi til að taka skynsamlega ákvörðun og geti verið góður varnagli gagnvart þinginu. Það er alls ekki hægt að gefa sér að þingið viti betur en kjósandinn. Það er margt annað sem ég lærði af því að taka þátt í baráttunni, að koma á framfæri sjónarmiðum þeirra sem vildu hafna samningnum. Þá á ég við að þar var ríkisvaldinu kannski beitt fullharkalega á móti grasrótinni. Það þarf að jafna þann leik.“

Við vorum með ríkisstjórnina á móti okkur, töluverðan hluta af fjölmiðlunum og hóp sem vildi að samningarnir yrðu samþykktir og hafði greinilega næga peninga milli handanna. Þannig að þegar ríkisstjórnin sendi bækling um kosningarnar inn á hvert heimili hefðu rök með og á móti hreyfingunum átt að fylgja með, að mínu mati. Við þurftum að smíða tölvukerfi frá grunni til að safna undirskriftum. Við þurftum að byrja á núlli. Það er ekki gott, að lýðræðið gangi út á þetta. Það þarf að búa til farveg þannig að þetta verði auðveldara í framkvæmd.“

Var réttlætismál fyrir þjóðina 

– Nú hefurðu beitt þér í skuldamálunum. Þið hafið nú ekki aðeins fundið blóðbragðið heldur hafið þið unnið sigur, fullnaðarsigur. Telurðu að sigur geti líka unnist í þessum stóra málaflokki?

„Já, það var mikið réttlætismál að þjóðin þyrfti ekki að bera skuldir einkabanka, en hún ber ennþá tjónið af efnahagshruninu á óréttlátan hátt. Það á eftir að leiðrétta stökkbreyttar skuldir heimilanna.“

– Nú líður mörgum eins og að þetta mál sé dautt?

„Nei. Þetta mál er ekki dautt. Það er búið að telja fólki trú um að það hafi ekki verið hægt að gera neitt en það er ekki rétt. Það eru margar leiðir til þess. Þær eru ekki endilega sársaukalausar. En það er ekki hægt að gefa réttlætinu frí bara af því að það er erfitt. Það verður samt að láta réttlætið hafa forgang.“

Stjórnvöld hafa gert alltof lítið fyrir skuldara

– Hvernig finnst þér ríkisstjórnin hafa staðið sig í skuldamálum heimilanna?

„Ég held að ríkisstjórnin hafi gert alltof lítið. 110%-leiðin leiddi aðeins til niðurfærslu skulda sem fólk gat ekki greitt hvort sem var. Síðan hafa dómstólarnir greitt úr þeim lánum sem voru ólögleg en ríkisstjórnin hefur ekki gert neitt umfram þetta. Það dugar ekki. Til þess að heimilin verði ekki bara í kælikerfi einhverja næstu áratugina þarf að leiðrétta þetta. Það er bæði réttlátt og þjóðhagslega hagkvæmt.“